Fram í tímann

Taki Sjálfstæðisflokkurinn þá ákvörðun að bjóða annað hvort VG eða Samfylkingunni í stjórnarsamstarf í stað Framsóknarflokksins væri flokkurinn nánast að tryggja sér áframhaldandi lykilstöðu og stjórnarseti að nýju eftir fjögur ár.

Með því væri rofin samstaða vinstri flokkanna á meðan Framsókn næði að braggast í stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram lang stærstur og gæti valið hvern hinna þriggja til samstarfs að fjórum árum liðnum.

Til lengri tíma litið er því að öllum líkindum best fyrir bæði VG og Samfylkingu að núverandi stjórn haldi áfram.


Einu sinni enn

Það stefnir allt í að núverandi stjórn sitji áfram. Það yrði því einu sinni enn fyrir báða flokka sem þar með myndu þjappa núverandi stjórnarandstöðu(kaffibandalagi)saman og útkoman eftir næstu kosningar sem gætu hæglega orðið mun fyrr en eftir fjögur ár yrði ríkisstjórn án bæði Sjáfstæðis og Framsóknarflokks.

Annars er ótrúlegt hve stjórnmálalífið á Íslandi hefur látið á sjá eftir brotthvarf Davíðs Oddssonar. Burt séð frá því hvaða álit menn hafa/höfðu á Davíð, þá er alveg öruggt að hann hefði ekki beðið dögum saman eftir svari frá Framsóknarmönnum hvort þeim þóknaðist að vera áfram í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Enn vandræðalegra er það fyrir Geir og félaga að þurfa að hlusta á ýmsa Framsóknarmenn lýsa því yfir að það sé slæmur kostur og nánast feigðarflan að starfa áfram með Sjálfstæðisflokknum. Jafnvel þingmenn Framsóknar taka svo til orða, að af tvennu illu væri hugsanlega skárri kostur að vera áfram með Geir. Ekki sérlega vænlegt upplegg fyrir nýja stjórn.


Bjarni á námskeið

Skemmtilegt var að sjá hinn nýja þingmann Framsóknarflokksins Bjarna Harðarson í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar sagðist hann aðeins kunna að segja sannleikann og taldi mun líklegra að flokkur sinn veldi að fara í vinstri stjórn og taldi öll tormerki á áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðismenn.

Að hafa þingmann sem aðeins kynni að segja sannleikann virtist ekki falla í kramið hjá yfirboðurum hans og svo virðist sem hann hafi fengið skyndihjálparnámskeið því daginn eftir var komið annað hljóð í strokkinn hjá Bjarna.

Raunar sagði Jón Sigurðsson formaður flokksins það nánast hreint út eftir ósigurinn á kosninganóttina að Framsóknarflokkurinn yrði ekki með í áframhaldandi stjórnarsamstarfi heldur myndi hann einbeita sér að því að byggja sig upp innanfrá. En þau ummæli voru greinilega sögð áður en Guðfaðirinn í Kaupmannahöfn hafði gefið honum línuna og brátt var kominn nýr texti inn á talhólfið hjá Jóni. 


Ekki galin hugmynd

Það er ekki galin hugmynd sem virðist hafa skotið upp kollinum að Framsókn verji minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar falli. Til að styrkja enn frekar grundvöllinn undir slíka stjórn mætti bjóða Jóni Sigurðssyni formanni Framsóknarflokksins ráðherrastól, ekki síst þar sem hann er nú utan þings.

Vandi Haarde

Geir Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins stendur nú frammi fyrir þeim vanda að ákveða, hvort hann eigi að endurnýja bílinn sinn eða bara keyra út úr þeim gamla. Það er nú ekki flóknara en það.

Frelsari fæddur

Mitt í svartnætti og fylgistapi Framsóknarflokksins er glæsilegur árangur í Norðausturkjördæmi mjög athyglisverður. Þrír menn inni og það sem meira er, ný stjarna er fædd og hugsanlegur "frelsari" sem svo lengi hefur verið beðið eftir. Höskuldur Þórhallsson kornungur frambjóðandi með litla sem enga reynslu að baki, kom sá og sigraði í þriðja sætinu. Hann kom mjög vel fram í kosningabaráttunni og hefur mikið persónufylgi á Akureyri og nágrenni. Ég er viss um að hann vann sjálfur fyrir sínu sæti, en flaut ekki inn á fylgi þeirra Valgerðar og Birkis. Það verður gaman að fylgjast með störfum Höskuldar á þingi og hugsanlega mun hann verða maðurinn sem í framtíðinni leiðir flokkinn til betri tíma eftir verðskuldað frí frá setu í ríkisstjórn.

"Sleggjan" sterk

Kristinn H Gunnarsson má vel við una eftir að hafa tryggt sér þingsæti á síðustu atkvæðunum sem talin voru. Ekkert benti til að svo yrði lengst af og ýmsir höfðu jafnvel grínast með að Framsóknarflokkurinn væri að hagnast á því að "Sleggjan" hefði gengið til liðs við Frjálslynda. En eins og svo oft áður kom í ljós að Vestfirðingar eru óútreiknanlegir og enn einu sinni höfðu þeir afgerandi áhrif á úrslit kosninga. Hvaða álit sem menn hafa á Kristni H, þá tel ég rödd hans eiga mikið erindi inn á þing og fagnaðarefni að þessi mikli baráttujaxl skuli standa vaktina enn um sinn og veita mönnum aðhald næstu fjögur árin.

Sigurliðin ræði saman

Þá er það komið á hreint, "kaffibandalagið" getur ekki myndað ríkisstjórn, en það er einnig ljóst að núverandi stjórn getur tæpast setið áfram. Framsóknarflokknum hefur verið hafnað af kjósendum og það yrði ekkert annað en pólitískt sjálfsmorð fyrir flokkinn að halda samstarfinu áfram.  Þá má einnig telja líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji fá til liðs við sig nýja samstarfsmenn með meira fylgi á bak við sig en Framsóknarflokkurinn hefur. Er ekki lang eðlilegast í stöðunni að sigurvegarar kosninganna, VG og Sjálfstæðisflokkur ræði saman og kanni hvort grundvöllur sé fyrir samvinnu flokkanna. Einhvern veginn finnst mér óeðlilegt að tveir langstærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking fari saman í stjórn. Sé Samfylkingunni alvara með því að hún vilji vera hið stóra mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í Íslenskum stjórnmálum, þá er svarið tæplega að setjast með þeim í ríkisstjórn.

 


Undan okinu

Akureyringar og aðriri kjósendur í norðurlandi eystra eiga þess nú kost að varpa af sér gömlu oki Framsóknarflokksins og KEA og ganga mót nýjum tímum. Svæðið hefur lengi verið varpland og uppeldisstöð Framsóknarflokksins og aðal bakland flokksins. Hér áður var það hið besta mál, en á síðari tímum hefur flokkurinn breyst frá því að vera málsvari alls þorra landsmanna, í hagsmunasamtök fyrir fámenna klíku sem hefur allt of mikil völd miðað við kjörfylgi dagsins í dag. Það er svo sannarlega kominn tími til fyrir Eyfirðinga og landsmenn alla að varpa af sér oki Framsóknarflokksins. Það á ekki síst við um Akureyringa sem hafa allt of lengi legið undir hinni dauðu hönd flokksins og löngu orðið tímabært að rekja upp hinn þétta köngulógarvef spillingar sem flokkurinn hefur ofið yfir og allt kring íbúa á þessu svæði. Sjálfur hef ég orðið fyrir barðinu á þeim samböndum og því kerfi sem gildir á Akureyri og tengja órújfanlegum böndum veralýðshreyfingu og fyrirtæki þannig að hinn óbreytti bæjarbúi á sér litla von um réttlæti. "Mafia er það og mafia skal það heita" sagði góður maður á sínum tíma sem allir Framsóknarmenn ættu að kannast við, en hefur varla búist við að ummælin ættu eftir að eiga vel við eigin flokk.

 

 


Sigur frjálslyndra

Lokaþáttur kosningabaráttunnar í Sjónvarpinu í kvöld þar sem formenn allra framboða voru mættir var að mörgu leiti athyglisverður. Svolítið vandræðalegur á köflum þar sem stjórnendur reyndu að líkja eftir gassalegum framgangi Stöðvar tvö, en í heildina vel heppnað og mun málefnalegri umræður en hjá keppinautunum hjá Stöð2.

Að mínu mati var Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslyndra ótvíræður sigurvegari kvöldsins og örugglega í fyrsta skipti sem hann kemst á topp þessarar úrvalsdeildar. Hann var frábær þegar hann sleppti sér og óþvingaður lét vaða, rétt eins og skipstjóri á lélega háseta. Ég gat ekki betur séð en bæði undrun og aðdáun úr svip þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Steingríms J. þegar skipperinn hafði lokið sér af.

Þrátt fyrir það tel ég enn vænlegast til árangurs fyrir landsmenn að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-Grænir myndi næstu ríkisstjórn. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband