rúv nauðgar notendum

Ég verð seint sakaður um að vera andstæðingur íþrótta, en frammistaða rúv á umfjöllun um nýhafna keppni á HM í knattspyrnu gengur hreinlega fram af mér. Vikum saman hafa verið sýndir kynningarþættir um liðin og keppnina í sjónvarpi allra landsmanna svo ekki sé nú minnst á einhverja opnunartónleika sem sýndir voru a.m.k. tvívegis í sjónvarpinu. Margir voru hreinlega búnir að fá uppí kok áður en keppnin hófst á þessari endalausu umfjöllun eða auglýsingaþáttum sérlegs sérfræðings sjónvarpsins Þorsteins J. Nú þegar tveir keppnisdagar eru að baki verður ekki annað sagt en keppnin hafi valdið miklum vonbrygðum. Ótrúlega léleg knattspyrna hefur verið á boðstólum og þá alveg sérstaklega af hálfu stórveldanna Frakklands og Englands sem aðeins náðu að gera jafntefli við Úrugvæ og Bandaríkin. En þó hrein pína hafi verið að horfa á leikina í sjónvarpinu vegna lítilla gæða, þá var sú litla ánægja sem maður þó hefði getað fengið eiðilögð af hinum svokölluðu sérfræðingum sem ásamt íþróttafréttamanni og aðstoðarmanni sem lýstu leikjunum völtuðu gersamlega yfir áhorfendur og tróðu skoðunum sýnum ofaní þá sem nenntu að horfa á útsendingar frá leikjunum. Hlutdrægnin er svo yfirþyrmandi að engu lagi er líkt, þeim stóru er hampað á kostnað hinna smáu þrátt fyrir að hver heilvita maður sjái að milljónastjörnurnar t.d.  Englands og Frakklands séu engu betri en leikmenn frá Asíu eða myrkviðum Afríku svo ekki sé nú minnst á fyrrum kommúinistaríki austur Evrópu.

Og maður spyr sig í ljósi frétta um peningaleysi  og samdrátt hjá Rúv. hvaðan þeir peningar koma til að greiða fjölda sérfræðinga laun sem koma að útsendingum á leikjunum. Greinilegt er að dagskrá Sjónvarpsins hefur látið gríðarlega á sjá að undanförnu, en bullið um HM í knattspyrnu virðist þar algerlega undanskilið. Af hverju þarf allan þennan fjölda manna til að stýra skoðunum hins almenna áhorfanda. Af hverju meiga myndirnar ekki tala sýnu máli og áhorfendur mynda sér sýnar eigin skoðanir á því sem þeir sjá. Ekki eru kallaðir til sérfræðingar þegar lesin er saga í útvarpi til að gjamma í tíma og ótíma um eigin skoðun á efninu. Nei, þessir svokölluðu sérfræðingar eru að eyðileggja skemmtun hins almenna áhorfanda að sjónvarpinu.

Hvenær varð Þorsteinn J. svo ekki sé nú minnst á hina þrjá misheppnuðu sérfræðina/knattspyrnumenn sem hann hefur aðallega sér til fulltingis, eittvað fróðari um íþróttina en hinn almenni borgari. Og hér erum við að tala um íþrótt sem við Íslendingar höfum aldrei talist til afreksmanna í. Þetta bull og þessi vitleysa öll minnir einna helst að þjónkununa við útrásina sálugu og þá víkinga sem fyrir henni stóðu. Lítum okkur aðeins nær og ef einhver þörf er fyrir rugl sem þetta þá væri nær að það sneri að þeirri íþróttagrein sem við getum eitthvað í, sem sé handboltanum.

 


Sá besti síðan Bjarni Fel.

Ég fylgist vel með íþróttafréttum og hef gert um áratugi. Sá besti í bransanum þegar ég fór að fylgjast með var Sigurður Sigurðsson, en síðan hefur Bjarni Felixson verið kóngurinn. Bjarni Fel.,   KR-ingur og landsliðsmaður í knattspyrnu. Aldrei hefur verið hægt að tengja hann við knattspyrnu fremur en aðrar greinar íþrótta í starfi sínu, fagmaður fram í fingurgóma sem allstaðar var vel heima og gerði aldrei upp á milli greina. Geir Magnússon var góður, en nú er kominn fram á sjónarsviðið maður sem getur tekið við kyndlinum af Bjarna Fel. og líkt og Bjarni kemur hann úr heimi fótboltans. Hjörtur Júlíus Hjartarson hefur staðið sig frábærlega vel þann stutta tíma sem hann hefur starfað sem íþróttafréttamaður hjá RÚV. Útilokað er að tengja hann við fótboltann frekar en aðrar greinar í umfjöllum hans um íþróttir og hann virðist vera vel að sér hvar sem er. Ég get fullyrt að ekki hefur komið fram betri íþróttafréttamaður í Íslandi síðan Bjarni Fel. hóf sinn frægðarferil. Vonandi gera forráðamenn RÚV sér grein fyrir hvaða gullmola þeir hafa í höndunum og láta ekki stöðvar á borð við Stöð 2 stela honum af sér. Ég vona einnig að Hjörtur geri sér grein fyrir því að hann starfar nú fyrir þann miðil sem flestir landsmenn taka mark á og láti ekki plata sig yfir í ruglið á stöð 2 og Sýn sem gerir útaf við trúverðugleika góðra manna á skömmum tíma.

 


Vonlaus blanda

 

Að sameina handboltalið KA og Þórs er eins og að blanda saman koníaki og undanrennu. Hvor um sig eru drykkirnir ágætir til síns brúks, en þegar þeim er blandað saman verður úr ódrekkandi sull. Það sama gerist þegar blandað er saman hinum rótgrónu handboltaliðum KA og Þór.

Nú verða handboltaáhugamenn á Akureyri að vona að Þorgerður Katrín ráðherra íþróttamála grípi í taumana. Hún greip fram fyrir hendur bæjaryfirvalda á Akureyri á dögunum er hún bannaði niðurrif skúrræfla í miðbænum. Til að bjarga handboltanum í bænum verður þessi fyrrum handboltadómari nú að leysa upp hið vonlausa lið "Akureyri" og friðlýsa handboltalið KA og Þórs. Af þeim er mun meiri eftirsjá en umræddum skúr sem ekki mátti rífa.


Kerlingar

Ég held ég nenni ekki að skrifa meira á þetta Mogga blogg. Óskaplega þreytt umræða og litlaus í alla staði. Allt of margar kerlingar af báðum kynjum sem ráða hér ríkjum.

 


Björt

Það var mun bjartara yfir Samfylkingarfólkinu eftir að þeir höfðu raðað í ráðherrastóla sína heldur en kollegum þeirra úr Sjálfstæðisflokknum. Það tók þó mun lengri tíma fyrir Samfó að ráða sínum ráðum, en ekki ólíklegt að þar spili inn í meira tjáningarfrelsi en hjá samstarfsflokknum. Og ekki er ólíklegt að meira tjáningarfrelsi í flokknum sé ein ástæða þess að jöfn skipting er í stólana milli karla og kvenna. Athyglisvert er að Kristján Möller úr Norðausturkjördæmi er nýr samgöngumálaráðherra, en hann hefur verið einn helsti gagnrýnandinn á þingi við þann málaflokk. Og Jóhanna Sigurðardóttir er tekin við félagsmálaráðuneytinu enda vandfundinn einstaklingur í landinu með meiri þekkingu en hún í þeim málaflokki.

En nú þegar ný stjórn hefur verið mynduð er rétt að óska henni alls hins besta og vonandi eiga landsmenn allir eftir að njóta góðra verka hennar á komandi árum.


Sveitt

Óskaplega voru það þreyttir menn og konur sem komu af fundi Geirs Haarde. Þetta minnti einna helst á knattspyrnulið eftir harðan leik sem ekki fór eins og best var á kosið. Ein kona sem ráðherra er nú bara eðlilegt þegar litið er á hópinn í heild og langt í þá næstu. Kristján Þór hefur eflaust verið næsti maður inn og hefði gjarnan mátt taka sæti Björns Bjarna. og þá má leiða að því líkum að Sturla Böðvarsson hafi einnig verið á undan næstu konu í goggunarröðinni. Þær sitja því eftir með sárt ennið allar nema Þorgerður Katrín og ættu kannski bara að fá sér bjór í kvöld og syngja lagið "áfram stelpur" eitthvað fram á nóttina.

Frekjan mikla!

Alveg er það með eindæmum að lesa skrifin frá hinum ýmsu "kvennréttindakonum" þar sem þær heimta a.m.k. jafn margar konur sem karla í næstu ríkisstjórn Íslands. Þessi kvennréttindafrekja er komin langt fram yfir öll velsæmismörk hér á landi. Ætli það sé ekki leitun á því landi í heiminum þar sem hlutur kvenna er og hefur verið jafn stór og hér. Var ekki kona í embætti forseta landsins og öll önnur embætti hafa staðið þeim opin svo fremi að þær hafi borið sig eftir björginni. Það er meira að segja búið að koma því svo fyrir að feður fá frí á launum til að sinna barna uppeldi.                         Ég get ekki með nokkru móti séð að eðlilegt sé að þröngva konu í ráðherrastól eingöngu vegna kynferðis svo dæmi sé tekið.

Ég leifi mér að halda því fram að konur á Íslandi hafi það betra en kynsystur þeirra annarsstaðar enda verða þær allra kerlinga elstar og lifa að meðaltali nokkrum árum lengur en íslenskir karlar. Væri ekki eðlilegt fyrir þessar elskur að staldra aðeins við og hugsa málin. Víða í hinum stóra heimi hafa konur ekki einu sinni fengið kosningarétt hvað þá meira.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra kemst oft vel að orði og sagði víst eitt sinn að staða konunnar væri fyrir aftan eldavélina(eða svo segir sagan). Ekki get ég nú alveg tekið undir þessa skoðun þar sem ég tel þær nú gera mun meira gagn fyrir framan eldavélina en aftan.


Tilhugalíf

Eitthvað virðast stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ekki ganga alveg eins smurt og búist hafði verið við. Eflaust hefst þetta þó með seiglunni og ekki nema sjálfsagt að þau Geir og Ingibjörg Sólrún taki sér góðan tíma í tilhugalífið.

Framundan er síðan stormasamt hjónaband sem mun enda með skilnaði á miðju kjörtímabili vegna framhjáhalds ef marka má spádóm völvu Moggans. Samkvæmt sömu spá mun frúin hlaupa í opinn faðm Steingríms J. og formanns Framsóknarflokksins sem engin veit hver verður, en fram kom í þættinum Framsókn í dag á stöð2 að Jón Sigurðsson hefði fengið nóg og væri á förum úr formannsstólnum. Alltaf fjör í Framsókn.

 

 


Tók sig upp gömul Framsókn

Það tók sig upp gömul og góð Framsókn í Kastljósinu á fimmtudagskvöldið þegar þeir Guðni Ágústsson og Steingrímur J Sigfússon fóru yfir nýjustu viðburði í stjórnarmyndunarviðræðunum. Varaformaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson fór þar á kostum og sýndi mönnum hvernig gamli góði Framsóknarflokkurinn var áður en Halldór Ásgrímsson svo gott sem stútaði flokknum. Og því miður fyrir Framsóknarmenn var farið að vilja Halldórs og vinur hans Jón Sigurðsson látinn taka við formennskunni s.l. vor. Staðan væri örugglega önnur og mun betri hjá flokknum ef Guðni hefði tekið við formennskunni og náð að tukta til drengina hans Halldórs sem hafa unnið flokknum ómetanlegan skaða á síðustu misserum.

Nú er spurningin hvort Guðni taki ekki við, rétti skútuna af og sigli hinnu gamla fleyi á hin fengsælu vinstri mið sem voru flokknum svo gjöful undir stjórn Steingríms Hermannssonar.

 


Þá það

Þá hafa menn það, Samfylkingin tekur við keflinu af Framsóknarflokknum í ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Stór og mikil stjórn með ríflegan meirihluta þannig að menn geta rifið kjaft án þess stjórnin sé í hættu.

Erfiðast verður þó eflaust fyrir ýmsa Sjálfstæðismenn að bjóða sinn höfuðandstæðing, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingar velkomna um borð.

En ætli ráðið verði ekki að gera hana að utanríkisráðherra eins og gert var við Valgerði Sverrisdóttir þegar menn voru hættir að þola hana í fráfarandi stjórn. Einhver sagði að utanríkisráðherra réði litlu og væri sjaldan heima. Þetta væri nokkurskonar nútíma landpóstur.

Áður var máltæki Framsóknarmanna, allt er betra en íhaldið, en nú hefur það snúist við og Sjálfstæðismenn segja í dag, allt er betra en Framsókn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband