Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Björt

Það var mun bjartara yfir Samfylkingarfólkinu eftir að þeir höfðu raðað í ráðherrastóla sína heldur en kollegum þeirra úr Sjálfstæðisflokknum. Það tók þó mun lengri tíma fyrir Samfó að ráða sínum ráðum, en ekki ólíklegt að þar spili inn í meira tjáningarfrelsi en hjá samstarfsflokknum. Og ekki er ólíklegt að meira tjáningarfrelsi í flokknum sé ein ástæða þess að jöfn skipting er í stólana milli karla og kvenna. Athyglisvert er að Kristján Möller úr Norðausturkjördæmi er nýr samgöngumálaráðherra, en hann hefur verið einn helsti gagnrýnandinn á þingi við þann málaflokk. Og Jóhanna Sigurðardóttir er tekin við félagsmálaráðuneytinu enda vandfundinn einstaklingur í landinu með meiri þekkingu en hún í þeim málaflokki.

En nú þegar ný stjórn hefur verið mynduð er rétt að óska henni alls hins besta og vonandi eiga landsmenn allir eftir að njóta góðra verka hennar á komandi árum.


Sveitt

Óskaplega voru það þreyttir menn og konur sem komu af fundi Geirs Haarde. Þetta minnti einna helst á knattspyrnulið eftir harðan leik sem ekki fór eins og best var á kosið. Ein kona sem ráðherra er nú bara eðlilegt þegar litið er á hópinn í heild og langt í þá næstu. Kristján Þór hefur eflaust verið næsti maður inn og hefði gjarnan mátt taka sæti Björns Bjarna. og þá má leiða að því líkum að Sturla Böðvarsson hafi einnig verið á undan næstu konu í goggunarröðinni. Þær sitja því eftir með sárt ennið allar nema Þorgerður Katrín og ættu kannski bara að fá sér bjór í kvöld og syngja lagið "áfram stelpur" eitthvað fram á nóttina.

Frekjan mikla!

Alveg er það með eindæmum að lesa skrifin frá hinum ýmsu "kvennréttindakonum" þar sem þær heimta a.m.k. jafn margar konur sem karla í næstu ríkisstjórn Íslands. Þessi kvennréttindafrekja er komin langt fram yfir öll velsæmismörk hér á landi. Ætli það sé ekki leitun á því landi í heiminum þar sem hlutur kvenna er og hefur verið jafn stór og hér. Var ekki kona í embætti forseta landsins og öll önnur embætti hafa staðið þeim opin svo fremi að þær hafi borið sig eftir björginni. Það er meira að segja búið að koma því svo fyrir að feður fá frí á launum til að sinna barna uppeldi.                         Ég get ekki með nokkru móti séð að eðlilegt sé að þröngva konu í ráðherrastól eingöngu vegna kynferðis svo dæmi sé tekið.

Ég leifi mér að halda því fram að konur á Íslandi hafi það betra en kynsystur þeirra annarsstaðar enda verða þær allra kerlinga elstar og lifa að meðaltali nokkrum árum lengur en íslenskir karlar. Væri ekki eðlilegt fyrir þessar elskur að staldra aðeins við og hugsa málin. Víða í hinum stóra heimi hafa konur ekki einu sinni fengið kosningarétt hvað þá meira.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra kemst oft vel að orði og sagði víst eitt sinn að staða konunnar væri fyrir aftan eldavélina(eða svo segir sagan). Ekki get ég nú alveg tekið undir þessa skoðun þar sem ég tel þær nú gera mun meira gagn fyrir framan eldavélina en aftan.


Tilhugalíf

Eitthvað virðast stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ekki ganga alveg eins smurt og búist hafði verið við. Eflaust hefst þetta þó með seiglunni og ekki nema sjálfsagt að þau Geir og Ingibjörg Sólrún taki sér góðan tíma í tilhugalífið.

Framundan er síðan stormasamt hjónaband sem mun enda með skilnaði á miðju kjörtímabili vegna framhjáhalds ef marka má spádóm völvu Moggans. Samkvæmt sömu spá mun frúin hlaupa í opinn faðm Steingríms J. og formanns Framsóknarflokksins sem engin veit hver verður, en fram kom í þættinum Framsókn í dag á stöð2 að Jón Sigurðsson hefði fengið nóg og væri á förum úr formannsstólnum. Alltaf fjör í Framsókn.

 

 


Tók sig upp gömul Framsókn

Það tók sig upp gömul og góð Framsókn í Kastljósinu á fimmtudagskvöldið þegar þeir Guðni Ágústsson og Steingrímur J Sigfússon fóru yfir nýjustu viðburði í stjórnarmyndunarviðræðunum. Varaformaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson fór þar á kostum og sýndi mönnum hvernig gamli góði Framsóknarflokkurinn var áður en Halldór Ásgrímsson svo gott sem stútaði flokknum. Og því miður fyrir Framsóknarmenn var farið að vilja Halldórs og vinur hans Jón Sigurðsson látinn taka við formennskunni s.l. vor. Staðan væri örugglega önnur og mun betri hjá flokknum ef Guðni hefði tekið við formennskunni og náð að tukta til drengina hans Halldórs sem hafa unnið flokknum ómetanlegan skaða á síðustu misserum.

Nú er spurningin hvort Guðni taki ekki við, rétti skútuna af og sigli hinnu gamla fleyi á hin fengsælu vinstri mið sem voru flokknum svo gjöful undir stjórn Steingríms Hermannssonar.

 


Þá það

Þá hafa menn það, Samfylkingin tekur við keflinu af Framsóknarflokknum í ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Stór og mikil stjórn með ríflegan meirihluta þannig að menn geta rifið kjaft án þess stjórnin sé í hættu.

Erfiðast verður þó eflaust fyrir ýmsa Sjálfstæðismenn að bjóða sinn höfuðandstæðing, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingar velkomna um borð.

En ætli ráðið verði ekki að gera hana að utanríkisráðherra eins og gert var við Valgerði Sverrisdóttir þegar menn voru hættir að þola hana í fráfarandi stjórn. Einhver sagði að utanríkisráðherra réði litlu og væri sjaldan heima. Þetta væri nokkurskonar nútíma landpóstur.

Áður var máltæki Framsóknarmanna, allt er betra en íhaldið, en nú hefur það snúist við og Sjálfstæðismenn segja í dag, allt er betra en Framsókn.


Fram í tímann

Taki Sjálfstæðisflokkurinn þá ákvörðun að bjóða annað hvort VG eða Samfylkingunni í stjórnarsamstarf í stað Framsóknarflokksins væri flokkurinn nánast að tryggja sér áframhaldandi lykilstöðu og stjórnarseti að nýju eftir fjögur ár.

Með því væri rofin samstaða vinstri flokkanna á meðan Framsókn næði að braggast í stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram lang stærstur og gæti valið hvern hinna þriggja til samstarfs að fjórum árum liðnum.

Til lengri tíma litið er því að öllum líkindum best fyrir bæði VG og Samfylkingu að núverandi stjórn haldi áfram.


Einu sinni enn

Það stefnir allt í að núverandi stjórn sitji áfram. Það yrði því einu sinni enn fyrir báða flokka sem þar með myndu þjappa núverandi stjórnarandstöðu(kaffibandalagi)saman og útkoman eftir næstu kosningar sem gætu hæglega orðið mun fyrr en eftir fjögur ár yrði ríkisstjórn án bæði Sjáfstæðis og Framsóknarflokks.

Annars er ótrúlegt hve stjórnmálalífið á Íslandi hefur látið á sjá eftir brotthvarf Davíðs Oddssonar. Burt séð frá því hvaða álit menn hafa/höfðu á Davíð, þá er alveg öruggt að hann hefði ekki beðið dögum saman eftir svari frá Framsóknarmönnum hvort þeim þóknaðist að vera áfram í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Enn vandræðalegra er það fyrir Geir og félaga að þurfa að hlusta á ýmsa Framsóknarmenn lýsa því yfir að það sé slæmur kostur og nánast feigðarflan að starfa áfram með Sjálfstæðisflokknum. Jafnvel þingmenn Framsóknar taka svo til orða, að af tvennu illu væri hugsanlega skárri kostur að vera áfram með Geir. Ekki sérlega vænlegt upplegg fyrir nýja stjórn.


Bjarni á námskeið

Skemmtilegt var að sjá hinn nýja þingmann Framsóknarflokksins Bjarna Harðarson í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar sagðist hann aðeins kunna að segja sannleikann og taldi mun líklegra að flokkur sinn veldi að fara í vinstri stjórn og taldi öll tormerki á áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðismenn.

Að hafa þingmann sem aðeins kynni að segja sannleikann virtist ekki falla í kramið hjá yfirboðurum hans og svo virðist sem hann hafi fengið skyndihjálparnámskeið því daginn eftir var komið annað hljóð í strokkinn hjá Bjarna.

Raunar sagði Jón Sigurðsson formaður flokksins það nánast hreint út eftir ósigurinn á kosninganóttina að Framsóknarflokkurinn yrði ekki með í áframhaldandi stjórnarsamstarfi heldur myndi hann einbeita sér að því að byggja sig upp innanfrá. En þau ummæli voru greinilega sögð áður en Guðfaðirinn í Kaupmannahöfn hafði gefið honum línuna og brátt var kominn nýr texti inn á talhólfið hjá Jóni. 


Ekki galin hugmynd

Það er ekki galin hugmynd sem virðist hafa skotið upp kollinum að Framsókn verji minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar falli. Til að styrkja enn frekar grundvöllinn undir slíka stjórn mætti bjóða Jóni Sigurðssyni formanni Framsóknarflokksins ráðherrastól, ekki síst þar sem hann er nú utan þings.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband