Þungur dómur

Nú er lokið einhverju leiðinlegasta og daufasta handboltatímabili síðari ára á Akureyri. Hið nýja sameinaða lið Akureyri náði að bjarga sér frá falli eftir mikið basl og ekki er hægt að segja að tilraunin fari vel af stað. Liðið lék fyrir hálf tómu húsi í allan vetur og ekki dugði einu sinni að bjóða mönnum frítt á leiki. Það er svo sannarlega af sem áður var er KA liðið troðfyllti KA heimilið á flestum leikjum.

Ástæðan fyrir sameiningunni er sögð vera fyrst og fremst af fjárhagslegum toga og greinilegt að íþróttafélögin eru hætt að líta á sig sem íþróttafélög heldur miklu fremur sem fyrirtæki sem verði að skila hagnaði af starfsemi sinni eða a.m.k. vera rekin á sléttu. Handknattleiksdeild KA hafði safnað skuldum sem að sögn voru helmingur af skuldum félagsins. Ætli knattspyrnudeildin hljóti þá ekki að eiga hinn helminginn og geti búist við rauða spjaldinu þá og þegar. Og deildin fékk þann dóm að ganga til samstarfs við Þór á jafnréttisgrundvelli þar sem staða Þórsara væri svo miklu betri fjárhagslega. Hvernig hægt var að fá það út er mér hulin ráðgáta þar sem Íþróttafélagið Þór hefur verið nánast gjaldþrota og af ýmsum talið vera ein verst reknu félagasamtök í bænum.

En félagsmenn standa frammi fyrir orðnum hlut, samningurinn er til 5 ára og óuppsegjanlegur. Að 5 árum liðnum eru miklar líkur til þess að handboltinn á Akureyri verði nánast liðinn undir lok ef marka má reynsluna af liðnum vetri. Þá verður að telja 5 ár þungan dóm og ekki möguleiki á að sækja um náðun. Hjónabandi er hægt að rifta hvenær sem er þrátt fyrir að þar sé sjálft almættið kallað til vitnis, en samstarfi KA og Þórs í handbolta skal haldið áfram á hverju sem gengur í a.m.k. 5 ár og ef því verður slitið að þeim tíma loknum verður öllu skipt til helminga. Það virðist því borin von að KA muni nokkurn tíma aftur tefla fram handboltaliði í meistaraflokki í handbolta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband