Færsluflokkur: Bloggar

Martröð D-listans

Þrátt fyrir langa setu í ríkisstjórn mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum mjög hátt og slagar jafnvel í að flokkurinn gæti fengið hreinan meirihluta í næstu kosningum. Ekki verður það sama sagt um samstarfsflokkinn, Framsóknarflokkinn sem er við hungurmörk í fylgi og vandséð að eigi sér framtíð. Varla verður þó sagt að allar ákvarðanir og gerðir Sjálfstæðisflokksins hafi verið dauðhreinsaðar og hafnar yfir allan vafa, heldur má miklu fremur þakka fylgið klókindum í að þurka af sér óhreinindin í samstarfsflokkinn sem raunar er skítsæll og ekki sérlega vandur að virðingu sinni hin síðari árin.

Nú segir sagan að ýmsir forráðamenn Sjálfstæðisflokksins vakni upp með andfælum á nóttunni af þeirri martröð að þurfa hugsanlega að stjórna einir. Ekki þykir þeim öllum vænlegt að þurfa einir að standa fyrir öllum sínum gjörðum og geta hvergi falist. Það sé eins og að fara í málningarvinnu í sparifötunum og hafa ekki svo mikið sem klút eða druslu til að þurka óhreinindin í. Þær dulur sem flokkurinn hefur notað, t.d. Framsókn og áður Alþýðuflokkurinn hafa látið verulega á sjá eftir notkunina eins og best sést á Framsóknarflokknum í dag. Það mun þó vera ósk D-listamanna að enn megi notast við leifarnar af Framsókn í fjögur ár í viðbót, mylja megi mesta skítinn úr dulunni og stoppa í stærstu götin þannig að ekki falli blettir á hinn glæsta og gljáandi feld Sjálfstæðisflokksins.

 


Þvílíkt bull

Það hefur verið furðulegt að fylgjast með hinum nýju framboðum, Íslandshreifingunni og eldri borgurum. Eftir langt og erfitt stríð tókst þó Íslandshreifingu Ómars Ragnarssonar að berja saman framboðslista í öllum kjördæmum. Fylgi við framboðið er þó mjög lítið og ekkert sem bendir til þess að það geri neitt annað en skaða Vinstri Græna og mjög líklega tryggja áfram núverandi stjórnarsamstarf. Það er enda ekki undarlegt þar sem hreifingin er stefnulaus í flestum málum öðrum en umhverfismálum og jafnvel það tala frambjóðendur út og suður. Blessaður karlinn hann Ómar virðist hafa ofmetið þátttökuna í mótmælagöngunni sem hann hélt gegn Kárahnjúkavirkjun á Laugaveginum í vetur.

Framboð eldri borgara er á hinn bóginn ekki í stakk búið til að skaða einn né neinn. Þeir náðu aðeins að skila inn framboðslista í einu kjördæmi. Eftir innbyrðis átök og deildur meðal aldraðra og öryrkja ásamt að mig minnir miðbæjarsamtökunum, stóð eftir hópur sem blés til sóknar og ákvað að bjóða fram. Ekki vildi þó betur til en svo að forystusauðurinn lenti í tölvuvandræðum og veikindum þannig að listarnir komust ekki til skila á réttum tíma. Gamlingjunum þótti þó ekki nema sjálfsagt að þeir fengju sérmeðferð og horft yrði framhjá lögum svo þeir gætu verið með. Hvernig í ósköpunum getur þessu fólki dottið í hug að það eigi eitthvert erindi á þing, eða nokkrum manni detti í hug að veita slíku framboði umboð sitt til að sjórna landinu þegar það ræður hvorki við tölvur né dagsetningar. 


Fallbarátta munaðarleysingjanna

TILRAUNIN til að búa til sterkt handboltalið á Akureyri með því að sameina lið KA og Þórs virðist vera að mistakast. Liðið sem átti að vera í toppbaráttu og berjast um verðlaun á öllum vígstöðvum mun heyja harða fallbaráttu í deildinni það sem eftir er vetrar.

Þeir voru raunar margir sem ekki spáðu hinu nýja liði "Akureyri" glæstri framtíð þegar lagt var upp s.l. haust. Ákvörðun að ofan, sem hinn almenni félagsmaður hafði lítinn möguleika á að hafa áhrif á, var keyrð fram af offorsi með tilstuðlan bæjarstjórnar sem að sögn myndi standa vel við bakið á hinu nýja liði fjárhagslega.

Harkalegar aðgerðir þjálfara strax í upphafi til þess að afmá merki félaganna KA og Þórs féllu ekki í góðan jarðveg og urðu til þess að ýmsir fylgismenn sneru strax baki við hinu nýja liði. Enn er talað um að heimavöllurinn, KA heimilið, sem er byggt fyrir starfsemi KA í heild en ekki aðeins handboltann, sé ekki í réttum litum, þ.e. gólfið og því verði að breyta!

Áhugi fyrir þessu liði er í lágmarki, sérstaklega hjá fyrrum stuðningsmönnum KA sem finnst mörgum sem miklu hafi verið fórnað fyrir lítið.

Í herbúðum Þórsara, þar sem handboltinn hefur ávallt átt erfitt uppdráttar, virðist áhuginn meiri, enda þjálfarar bæði meistara- og 2. flokks úr þeirra röðum og þess virðist hafa verið gætt að leikmenn frá Þór eigi örugg sæti í hópnum.

Liðið hefur ekki þótt leika skemmtilegan handbolta í vetur, enda að stórum hluta skipað miðlungsgóðum erlendum leikmönnum og Íslendingum komnum af léttasta skeiði.

Langbesti leikmaður Þórs frá í fyrra og raunar sá eini úr þeim herbúðum sem hefði styrkt KA liðið, Arnór Gunnarsson, kaus fremur að leika með Val en Akureyri. Jónatan Magnússon, fyrirliði KA, hélt til Frakklands, Ragnar Njálsson til HK og efnilegasti leikmaður KA í fyrra, Elfar Halldórsson hefur ekki fengið tækifæri með Akureyri og fær aðeins að leika með 2. flokki!

Þá er ekki að sjá að úr miklum fjármunum sé að spila eins og einhverjir bjuggust við, t.d. var ekki hægt að fá í liðið leikmenn sem talið var nauðsynlegt í ákveðnar stöður. Varðandi kvennalið Akureyrar er staðan síst betri þar sem þjálfarar liðsins hættu t.d. í vetur og ástæðan talin vera sú að þeim fannst ekki nægilega vel staðið við bakið á liðinu.

Verst finnst mér þó að áhugi á íþróttinni á Akureyri hefur minnkað og iðkendur yngri flokka hjá KA eru nú færri en verið hefur.

Hvatinn er enda ekki sá sami og áður, ungir krakkar sem áður stefndu að því að leika í meistaraflokki fyrir sitt félag eiga þess nú ekki kost lengur. Þegar þeir hafa lokið leik í 3. flokki verða þeir að yfirgefa uppeldisfélagið KA eða Þór og fara annað, hvort sem það er Akureyri eða félag utan bæjarins.

Eflaust hefur tilgangurinn með stofnun hins nýja félags verið góður, en ég leyfi mér að efast um aðdragandann og hvernig að kynningu í félögunum var staðið. Þá virtust þeir sem í fyrirsvari stóðu vera mjög viðkvæmir fyrir allri gagnrýni og eru eflaust enn.

Mín skoðun var sú að ef aðeins var möguleiki á einu handboltaliði á Akureyri, hefði verið rétt að það lið léki undir merkjum KA. Þar var hefðin og áhuginn, félagið búið að vera í fremstu röð á Íslandi s.l. 15 ár á meðan Þór hafði barist í bökkum með sinn handbolta.

Á sama hátt og KA lagði niður körfuboltann hjá sér fyrr á árum og eftirlét Þórsurum þá íþrótt, þá hefði verið mun vænlegra til árangurs ef Þórsarar hefðu eftirlátið KA handboltann í bænum.

Þetta nýja sameiginlega lið vantar bakgrunn og rætur þar sem áhersla hefur verið lögð á að klippa sem mest á tengslin við KA og Þór, þaðan sem leikmennirnir koma eða eiga að koma.

Liðið er því munaðarlaust og mun eiga erfitt með að fóta sig í framtíðinni nema skrefið verði stigið til fulls og aðrar íþróttagreinar sem tefla fram meistaraflokkum í boltagreinum í bænum, svo sem knattspyrna, körfubolti og blak, muni einnig leika með eitt lið undir merkjum Akureyrar, þannig að KA og Þór verði aðeins uppeldisfélög sem sjái aðeins um yngri flokka starf.

Höfundur er áhugamaður um handbolta og íþróttir almennt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband