Martröð D-listans

Þrátt fyrir langa setu í ríkisstjórn mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum mjög hátt og slagar jafnvel í að flokkurinn gæti fengið hreinan meirihluta í næstu kosningum. Ekki verður það sama sagt um samstarfsflokkinn, Framsóknarflokkinn sem er við hungurmörk í fylgi og vandséð að eigi sér framtíð. Varla verður þó sagt að allar ákvarðanir og gerðir Sjálfstæðisflokksins hafi verið dauðhreinsaðar og hafnar yfir allan vafa, heldur má miklu fremur þakka fylgið klókindum í að þurka af sér óhreinindin í samstarfsflokkinn sem raunar er skítsæll og ekki sérlega vandur að virðingu sinni hin síðari árin.

Nú segir sagan að ýmsir forráðamenn Sjálfstæðisflokksins vakni upp með andfælum á nóttunni af þeirri martröð að þurfa hugsanlega að stjórna einir. Ekki þykir þeim öllum vænlegt að þurfa einir að standa fyrir öllum sínum gjörðum og geta hvergi falist. Það sé eins og að fara í málningarvinnu í sparifötunum og hafa ekki svo mikið sem klút eða druslu til að þurka óhreinindin í. Þær dulur sem flokkurinn hefur notað, t.d. Framsókn og áður Alþýðuflokkurinn hafa látið verulega á sjá eftir notkunina eins og best sést á Framsóknarflokknum í dag. Það mun þó vera ósk D-listamanna að enn megi notast við leifarnar af Framsókn í fjögur ár í viðbót, mylja megi mesta skítinn úr dulunni og stoppa í stærstu götin þannig að ekki falli blettir á hinn glæsta og gljáandi feld Sjálfstæðisflokksins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband