Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vandi Haarde

Geir Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins stendur nú frammi fyrir þeim vanda að ákveða, hvort hann eigi að endurnýja bílinn sinn eða bara keyra út úr þeim gamla. Það er nú ekki flóknara en það.

Sigur frjálslyndra

Lokaþáttur kosningabaráttunnar í Sjónvarpinu í kvöld þar sem formenn allra framboða voru mættir var að mörgu leiti athyglisverður. Svolítið vandræðalegur á köflum þar sem stjórnendur reyndu að líkja eftir gassalegum framgangi Stöðvar tvö, en í heildina vel heppnað og mun málefnalegri umræður en hjá keppinautunum hjá Stöð2.

Að mínu mati var Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslyndra ótvíræður sigurvegari kvöldsins og örugglega í fyrsta skipti sem hann kemst á topp þessarar úrvalsdeildar. Hann var frábær þegar hann sleppti sér og óþvingaður lét vaða, rétt eins og skipstjóri á lélega háseta. Ég gat ekki betur séð en bæði undrun og aðdáun úr svip þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Steingríms J. þegar skipperinn hafði lokið sér af.

Þrátt fyrir það tel ég enn vænlegast til árangurs fyrir landsmenn að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-Grænir myndi næstu ríkisstjórn. 


Þjóðarsáttarstjórn

Eftir að hafa horft á stórskemmtilegan kosningaþátt á stöð 2 með formönnum flokkanna er ég á þeirri skoðun að það sem þjóðin þurfi virkilega á að halda eftir klofning og harðar deilur undanfarin misseri sé þjóðarsáttarstjórn. Þar á ég við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri Grænna. Ég sé ekki fyrir mér að tveir stærstu flokkarnir fari saman þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, enda ætti með góðum vilja að vera mun auðveldara fyrir D og V lista að ná saman. Formenn flokkanna þeir Geir Haarde og Steingrímur J Sigfússon eru án efa tveir virtustu og hæfustu stjórnmálamenn landsins um þessar mundir og vel treystandi til að hemja sitt fólk. Með farsælu samstarfi þessara flokka næðist sátt í þjóðfélaginu og grundvöllur skapaðist til að íhuga málefni þjóðarinnar  og framtíð í meira næði en verið hefur síðustu árin. Það má einnig nefna að ein afkastamesta og farsælasta ríkisstjórn Íslands frá upphafi, Nýsköpunarstjórnin var einmitt skipuð Sjálfstæðisflokki og Alþýðubandalagi. Ég er sannfærður um að slíkt stjórnarsamstarf á mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar og vilji er allt sem þarf til að hún geti orðið að veruleika.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband